Við hjá Pipp höfum einstaklega gaman að því að velta vefsíðum fyrir okkur. Guðmundur Ragnar Einarsson, okkar hönnunargúrú og stjörnuvefari fór á stúfana, heimsótti kosningaskrifstofur, tók út vefsíður flokkanna og gaf þeim einkunn.
Guðmundur, eða GRE, eins og hann er oft kallaður, er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og rökstyður hér einkunnir sínar á vefsíðum stjórnmálaflokkanna. GRE fór upprunalega yfir þessa gagnrýni sína í viðtali í Bítinu á Bylgjunni, en viðtalið má hlusta á neðst í þessari færslu.
Framsókn / Vefsíða unnin í Framer
www.xb.is
Þetta er vefsíða fyrir lélegan farsa, ekki stjórnmálaflokk. Síðan er stútfull af villum og fékk ég reglulega villumeldinguna upp: 404, Page not found. Ég kalla þessa síðu „þá grænu“ en ég fast upp á að vafra um hana. Þau bjóða upp á kosningaleik sem er eins og fulli frændinn í jólaboðinu sem heldur að hann sé fyndinn en er það bara alls ekki. Hér eru flestar, ef ekki allar, reglurnar í vefsmíði brotnar og svo margt sem vantar á síðuna, til að mynda annað tungumál en íslensku og viðburði á vegum flokksins. Vöfflurnar á kosningaskrifstofunni eru samt fínar.
Einkunn: 3
Kosningaspá: Falla af þingi
Ábyrg framtíð / Vefsíða unnin í Wix
www.abyrgframtid.is
Síðan gerir það sem hún þarf að gera og aðgengi að stefnumálum er auðvelt. Hins vegar vantar alveg að taka fram hverjir eru í framboði og upplýsingar um kosningaskrifstofuna. Þar af leiðandi hef ég hvorki heimsótt skrifstofuna né smakkað vöfflurnar.
Einkunn: 4,5
Kosningaspá: Kemst ekki á þing
Flokkur fólksins / Vefsíða unnin í WordPress
www.flokkurfolksins.is
Þessi síða er aðeins of gul, sem er mjög ónotendavænn litur. Á forsíðunni er ringulreið: of mikið af stefnumálum í belg og biðu og of mikið af andlitum. Betra væri að hafa forsíðuna hnitmiðaðri og einfaldari. Það er mikið sett í myndbönd en minna í textagerð, sem mér finnst vera mistök. Farsímaútgáfa síðunnar er ekki góð, þau bjóða ekki upp á annað tungumál en íslensku og vöfflurnar á kosningaskrifstofunni voru ekki uppá marga fiska.
Einkunn: 4,9
Kosningaspá: Hljóta 10% fylgi
Píratar / Vefsíða unnin í Squarespace
www.piratar.is
Píratar nota slagorðið „Öðruvísi forysta“ á síðunni sinni en finnast ekki undir því slagorði í leitarvélum, sem er miður. Ég var engu nær um Pírata eftir heimsókn á þessa síðu. Stefnumálin eru alltof mörg og mjög skrýtið að ekki sé boðið upp á önnur tungumál en íslensku. Ef textinn væri betri væri síðan mjög góð, en hún virkar hins vegar ekki í mobile útgáfu sem er stór mínus. Frambjóðendum eru hins vegar gerð góð skil. Vöfflurnar þeirra eru ekki góðar, enda er ég ekki hrifinn af vegan vöfflum.
Einkunn: 5,5
Kosningaspá: Detta af þingi
Viðreisn / Vefsíða unnin í WordPress
www.vidreisn.is
Stefnan þeirra er flott uppsett og aðalmálin blasa við. Hnitmiðað og flott. Frambjóðendur eru sýnilegir og aðgengilegar, en síðan ná góðu punktarnir ekki lengra. Það vantar yfirlit yfir alla viðburði á döfinni til dæmis og það eru smá vonbrigði að ekki séu önnur tungumál en íslenska. Synd og skömm, því þessi vefur hafði alla burði til að vera geggjaður.
Einkunn: 6
Kosningaspá: Hljóta 23% fylgi
Vinstri Græn / Vefsíða unnin í WordPress
www.vg.is
Síðan byrjar vel – skilaboðin eru skýr og skorinort og vefsíðan tikkar í öll box. Eftir því sem maður fer lengra inn á síðuna verður ringulreiðin meiri og erfitt að sjá hver er í framboði og fyrir hvað flokkurinn stendur. Þau eru með síðuna á ensku og pólsku sem er mjög vel gert og síðan er einnig vel forrituð. Vefsíðan virkar vel í mobile útgáfu en það mætti laga myndirnar. Ég bjóst við meiru frá VG en vöfflurnar eru góðar.
Einkunn: 6,5
Kosningaspá: Detta af þingi
Lýðræðisflokkurinn / Vefsíða unnin í WordPress
Mjög flókin síða, textinn grár og erfitt að lesa hann. Á forsíðunni er einhvers konar teljari sem er ruglingslegur og ég nennti ekki að bíða eftir lokatölunni. Það er samt búið að pæla í þessari síðu en boðskapurinn er bara svo æstur og reiður. Hér vantar smá von og gleði. Hér hefði líka verið sniðugt að tryggja sér styttra lén, til dæmis xl punktur is, en flokkurinn fær prik fyrir að vera með síðuna á ensku og pólsku auk íslensku.
Einkunn: 6,5
Kosningaspá: Kemst ekki á þing
Sjálfstæðisflokkurinn / Vefsíða unnin í WordPress
www.xd.is
Mér líður eins og þetta sé sama síða og seinast, mikið um loft en lítill fókus á hvað þau ætla að gera og hvað þau standa fyrir. Þetta er eins og að ætla að kaupa sér ný jakkaföt en ganga út aðeins með nýja sokka. Það er frábært að þau eru með síðuna líka á ensku og pólsku og framboðslistar eru snyrtilega settir fram. Hins vegar finnst mér mjög hallærislegt að vera með þetta spjallmenni og skíra það BjarnAI Ben. Vöfflurnar líta vel út en bragðlitlar.
Einkunn: 6,5
Kosningaspá: Hljóta 11% fylgi
Miðflokkurinn / Vefsíða unnin í WordPress
www.midflokkurinn.is
Fín síða sem er vel matreidd og allar upplýsingar til staðar. Hér er greinilega mikið unnið í texta og myndir sem er til fyrirmyndar. Þau eru með síðuna líka á ensku og pólsku og hún virkar vel á öllum snjalltækjum. Ágætar vöfflur á kosningaskrifstofunni og besta túnfisksalat sem ég hef á ævi minni smakkað.
Einkunn: 7,5
Kosningaspá: Hljóta 14% fylgi
Sósíalistaflokkur Íslands / Vefsíða unnin í WordPress
www.sosialistaflokkurinn.is
Þessi síða er rosalega reið, hér er mikið um hástafi og rauði liturinn er alls ráðandi. Flott síðan og ég var fljótur að finna upplýsingar um stefnu og áherslur en vantar upplýsingar um viðburði. Síðan er á íslensku, ensku og pólsku og virkar á öllum tækjum, en ég set stórt spurningamerki við að tiltölulega nýr flokkur sé ekki með listabókstafinn sinn áberandi á síðunni. Ég tel það vera skissu.
Einkunn: 8
Kosningaspá: Hljóta 8% fylgi
Samfylkingin / Vefsíða unnin í React / Next / Headless CMS
www.xs.is
Frábær síða í alla staði og allar upplýsingar matreiddar snyrtilega ofan í notandann. Síðan er frábærlega vel skrifuð, mjög aðgengileg, skýr og veitir sömu upplifun sama hvaða tæki maður notar. Þau eru með síðuna á íslensku, ensku og pólsku, með frábærar myndir á síðunni, viðburðir aðgengilegir og lang, langbestu vöfflurnar.
Einkunn: 9
Kosningaspá: Hljóta 22% fylgi
Hér má hlusta á GRE fara yfir vefsíðurnar í Bítinu á Bylgjunni:
Þess má geta að eftir að viðtalið birtist tók Viðreisn gagnrýnina til sín og gerði góðar bætur á sinni síðu.