Já, þið lásuð sko hárrétt! Við erum hinir einu, sönnu góðkunningjar lögreglunnar. En það er alls ekki vegna óspekta á almannafæri eða umferðarlagabrota. Ó, nei. Við erum orðin það sem er kallað hirðvefarar lögreglunnar. Eða, við köllum okkur allavega hirðvefara því okkur finnst það frekar nett orð.
Við erum nefnilega búin að gera vefsíðu fyrir Lögregluna sjálfa en einnig Almannavarnir og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, sem margir kannast kannski betur við undir nafninu Lögregluskólinn.
Þannig að það þarf ekki alltaf að vera slæmt að vera góðkunningjar lögreglunnar. Í okkar tilfelli er það bara helvíti fínt! Við erum búin að vinna með lögreglunni í rúmlega tvö ár og eru vefir hennar enn þá í þróun. Veftímar nefnilega breytast svo hratt þannig að það er mikilvægt að vera á tánum og fylgjast vel með öllu því sem gæti reynst fólki og fyrirtækjum vel.
Að segja að samstarfið hafi gengið vel við starfsmenn lögreglunnar væri vægt til orða tekið. Við erum búin að kynnast aragrúa af fólki í hinum ýmsu deildum, sem eiga eitt sameiginlegt: Að vera faglegt í vinnubrögðum og líka ansi hreint skemmtileg. Þessi vinna er því búin að vera mjög gefandi. Svo gefandi að við glöddum lögreglumenn með kleinuhringjum frá Blaka um daginn því þeir áttu það svo sannarlega skilið! Okkar væntingar voru að eftir smjatt á hringjunum myndu þeir bjóða upp á einhvern skemmtilegan orðaleik um hvað kleinuhringirnir væru góðir. Þeir brugðust okkur að sjálfsögðu ekki og hlóðu í: „Þeir eru svo góðir að þeir ættu að vera bannaðir.“
Við berum því nafnbótina Góðkunningjar lögreglunnar stolt. Við bjuggumst reyndar við því að við myndum lenda á einhverjum VIP lista yfir lögguvini. Myndum kannski losna við stöku sekt hér og þar eða fá að keyra um í lögreglubíl í búning og alles, en það voru víst bara draumórar. Sem er reyndar gott að vita. Við viljum öll að lögreglan fari eftir lögum og reglu, ekki satt?