Fyrst að hún Lilja okkar hafði alveg svakalega rangt fyrir sér þegar hún spáði fyrir um sigurvegarann í undankeppni Eurovision hér heima, heimtaði hún að fá að spá aftur í spilin, þó að Svala sé dottin úr leik.
Við hjá Vefgerðinni erum óskaplega sorgmædd yfir því að Paper fái ekki að heyrast enn einu sinni á stóra sviðinu í Kænugarði annað kvöld en ætlum samt sem áður að reyna að halda þrusu Eurovision-partí. Eigum við ekki bara að gefa henni Lilju orðið? Hún virðist fullviss um að hún sé búin að finna næsta sigurvegara Eurovision og ætlar að gefa okkur topp 5 spána sína. Take it away, Lilly!
5. sæti – Svíþjóð
Íslandsvinurinn Robin Bengtsson er klárlega með svalasta atriðið í keppnninni í ár að mínu mati. Hann er náttúrulega algjör smjörpungur og dansararnir hans fjórir alveg eins og klipptir út úr Dressman-auglýsingu. Lagið er grípandi og vel uppbyggt popplag en það gæti unnið á móti honum Robin mínum að hann er 24. á sviðið. Ég held að sænski smjörpungurinn lendi í 5. sæti, þó ég væri alveg til í að sjá hann vinna því Svíar eru svo ansi lunknir að halda Eurovision!
4. sæti – Hvíta-Rússland
Mér finnst geðveikt að dúettinn Naviband syngi á hvít-rússnesku en lagið er svo skemmtilegt og hressandi að ég eiginlega gleymi því að þau séu að syngja á sínu móðurmáli, en ekki ensku. Artem og Ksenia skipa Naviband og þau eru bæði svo sjarmerandi að það hálfa væri nóg! Mig langar bara að standa upp og dansa þegar þau mæta á sviðið. Ég held samt að þau verði að sætta sig við fjórða sætið þetta árið.
3. sæti – Portúgal
Fólk heldur hreinlega ekki vatni yfir hinum sérstaka Salvador Sobral en lagið hans er ólíkt öllum hinum lögunum í keppninni. Ég er viss um að dómnefndin gefur honum toppeinkunn því flutningurinn er algjörlega gallalaus. Salvador er 11. á svið, mitt á milli kraftballöðu og gullfoss frá Danmörku og hesthausnum frá Azerbaidjan. Það á eftir að hjálpa honum en ég held að evrópskir áhorfendur eigi eftir að dömba honum Salvador niður í 3. sæti.
2. sæti – Ungverjaland
Jebb, þið lásuð það fyrst hér! Ungverjaland er að fara að vera sótsvartur hestur og stela öðru sætinu af söngfuglinum frá Portúgal. Ég hef ofurtrú á Ungverjanum Joci því lagið hans er algjör snilld! Það er þjóðlegt, það er hressandi, það er dramatískt og hann er barasta þrususöngvari! Jú, og rappari! Sviðssetningin hæfir laginu mjög vel og allt atriðið neyðir mann til að horfa. Mjög vel gert!
1. sæti – Ítalía
Og á eftir honum Joci kemur eitt besta Eurovision-lag síðari ára, að mínu mati. Francesco Gabbani bara hlýtur að vinna! Ég verð alveg brjáluð ef hann gerir það ekki! Þetta lag hefur allt. Það er á ítölsku, sem er afar fagurt mál þegar það er sungið (ég er ekkert spes hrifin af talmálinu), það er górilla á sviðinu, það er boðið upp á hróp og köll úr áhorfendasalnum og ég veit ekki hvað og hvað. Francesco er líka hressasti maður í Evrópu og ég vona að Evrópa verði jafn ástfangin af honum og ég er af þessu lagi. Namaste!
Lög sem gætu blandað sér í toppbaráttuna: Búlgaría, Moldóva, Noregur og Frakkland.
Góða Eurovision-helgi og áfram Ítalía! Allez!