Fréttanetið er vefur í vinnslu sem opnaður var í núverandi mynd þann 3. maí 2020. Það er tiltölulega stutt síðan hugmyndin að Fréttanetinu kviknaði og gekk þróun vefsins afar hratt fyrir sig þar til hann opnaði í byrjun maí.

Hugmyndin með Fréttanetinu er að safna saman fróðleik, fréttum, pistlum, hlaðvörpum og myndböndum úr öllum áttum á einn stað og þannig byggja upp öfluga efnisveitu þar sem flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Markmiðið er einfalt; að skemmta, fræða og upplýsa. Draumurinn með Fréttanetinu er að byggja upp alíslenska efnisveitu, í anda YouTube, þar sem börn og fullorðnir geta gleymt sér yfir efni frá samlöndum sínum, sem er allt á okkar ástkæra, ylhýra máli. Það má í raun segja að kveikjan að Fréttanetinu hafi verið þegar að fjögurra ára dóttir eins af stofnendum miðilsins, Guðmundar R. Einarssonar, gekk upp að honum og sagði:

„Pabbi, hvernig segir maður purple á íslensku?“

Það var kornið sem fyllti mælinn og féllust Guðmundi hendur er hann horfðist í augu við það að barnið hans, sem er ekki einu sinni byrjað í grunnskóla, kýs frekar erlendar efnisveitur en skemmtiefni á sínu eigin móðurmáli. Ástæðan er ekki að hún sé svo ólm í að læra ensku. Ástæðan er sú að framboð á íslensku efni á netinu er af skornum skammti.

Þar sem uppbygging vefsins var ansi hröð, tökum við öllum ábendingum og leiðréttingum fagnandi, hvort sem þær eru litlar eða stórar, en biðjum jafnframt lesendur um að sýna okkur smá miskunn er við njótum hveitibrauðsdaganna.

Að Fréttanetinu stendur alls konar fólk; fólk úr viðskiptalífinu, úr fjölmiðlaheiminum, markaðsþenkjandi fólk, listaspírur og fyrirtækjaeigendur. Þetta fólk á eitt sameiginlegt – ástríðu fyrir Fréttanetinu og trú á að miðill sem hann geti gengið upp.

Fréttanetið er ekki eiginlegur fjölmiðill og ekki skráður sem slíkur hjá Fjölmiðlanefnd. Því er enga ritstjórnarstefnu að finna á síðunni, enn sem komið er. Við erum opin fyrir breytingum hér á Fréttanetinu og hugsanlega gæti framtíðin þýtt það að Fréttanetið verði skráður fjölmiðill. Enn sem komið er njótum við þess að leika okkur á þessum vettvangi. Við setjum okkur hins vegar siðareglur, í anda siðareglna Blaðamannafélags Íslands, enda teljum við að mikilvægt sé að siðareglur séu í hávegum hafðar á vefmiðli þar sem margir pennar og hugsuðir með ólíka sýn á lífið koma saman.

Við hlökkum til þessarar vegferðar og hvetjum þá sem finna fyrir mikilli tjáningarþörf eða vilja koma efni sínu á framfæri að hafa samband við okkur í gegnum netfangið hallo@frettanetid.is. Við tökum öllum ábendingum og erindum fagnandi og reynum að svara öllum eins fljótt og hægt er.

Við höfum fulla trú á að miðill eins og Fréttanetið eigi rétt á sér og geti lifað af, þó umhverfi vefmiðla sé erfitt og skrýtið nú til dags. Hópurinn sem stendur á bak við Fréttanetið er heldur ekki hræddur við að skipta um skoðun, viðurkenna mistök og þróast áfram í rétta átt. Því hlakka ég gífurlega mikið til að sjá hvert þessi vegferð leiðir okkur.