Stafræna markaðsstofan Pipp er svo sannarlega á flugi, en aðeins nokkrar vikur eru síðan hún opnaði dyr sína að alls kyns stafrænum tækifærum og draumum.

Frá opnun höfum við tekið að okkur mjög spennandi verkefni, bæði hér heima og erlendis, en rúsínan í pylsuendanum var matreidd þann 11. febrúar síðastliðinn þegar við sópuðum til okkar fernum verðlaunum hjá CSS Design Awards.

Við fengum þann heiður að hljóta verðlaun fyrir bestu UI hönnun, bestu UX hönnun og bestu nýsköpun hjá CSS Design Awards fyrir vefsíðu Pipp, en um er að ræða kosningu sem fer fram meðal almennings. Verðlaunaplöggin má sjá hér í aðalmyndinni fyrir ofan. Við erum í skýjunum með þessa viðurkenningu og þökkum öllum þeim sem kusu innilega fyrir. Þá hlutum við einnig Special Kudos frá CSS Design Awards fyrir vefsíðu Pipp.

Special Kudos.

Við erum svo ánægð með að vefsíða Pipp sé að fara vel ofan í fólk – rétt eins og súkkulaðið sykursæta og ljúffenga. Pipp er okkur mjög kært og við teljum að okkar áratugalanga reynsla geti gert hvaða stafræna ferðalag sem er árangursríkt og skemmtilegt.

Þessi viðurkenning á okkar störfum í bland við þau verkefni sem okkur hefur verið treyst fyrir undanfarið segir okkur að við séum á réttri leið. Meðal þess sem við erum að bardúsa þessa dagana er að skapa stafrænan heim fyrir erlendan aðila í skemmtanaiðnaði, sköpuðum og útfærðum herferðina lokum.is fyrir samtök áhugafólks um spilafíkn og margt, margt fleira. Verkefnin eru jafn misjöfn og þau eru mörg, en varðandi fyrrnefnda herferð höfum við sett á okkur alls konar hatta; hannað auglýsingar fyrir sjónvarp, prent og auglýsingaskilti, skrifað greinar og viðtöl, haft samskipti við fjölmiðla og þróað drauma samtakanna í átt að veruleika.

Þó þessi heimur sé hálf undarlegur um þessar mundir þá horfum við hjá Pipp bjartsýnum augum fram á veginn og höldum áfram að skapa, þróa, skrifa og hafa gaman. Njóta lífsins. Er það ekki tilgangurinn með þessu öllu saman?