Dauðaspilið lýsir dauðanum sjálfum í persónu á hesti sem ríður í gegnum dauða akra þar sem fólk af öllum stærðum og gerðum hneigir sig fyrir honum. Á flestum dauðaspilum heldur hann á hvítri 5 blaða rós sem er táknrænt fyrir lífið sjálft. Dauðinn er spil sem marga hræðir en vertu ekki hræddur elsku vinur, því þetta spil táknar ekki dauða persónu heldur öllu heldur breytingar – dramatískar, róttækar og varanlegar breytingar.

Hér kemur enn og aftur spil sem táknar breytingar, eyðingu þess gamla og úrelta og fæðingu þess nýja. Þetta getur varðað lífsstíl eða mynstur sem þú ert fastur í, dómhörku, gildi, skoðanir eða hvað sem getur mögulega tekið endalokum og umbreyst í eigin fasi, líkama og lífi. Grundvallandi atriðið er að þú getur ekki stoppað þessa breytingu eða stýrt henni í höfn, eftir eigin höfði. Mikilvægt er að halda reisn á þessari stundu, skoða sig um og tengja sig kjarnanum sínum í auðmýkt og lotningu. Lífið er flæði og þetta spil táknar umbreytingarpól sem annað hvort er að koma eða er kominn.