Eins gott að það kemur bráðum helgi því við þurfum að fagna, dömur mínar og herrar!
Við getum stolt sagt frá því að við vorum að vinna þriðju, alþjóðlegu verðlaunin fyrir vefsíðuna Mekong Tourism – ferðaþjónustusíðu fyrir lönd sem eiga landamæri að Mekong-ánni í Suðaustur-Asíu.
Vefsíðan hlaut ITB Asia verðlaunin í flokki Responsible Tourism Website en verðlaunin eru afhent af TravelMole netsamfélagi fyrir ferðabransann. Þetta var í níunda sinn sem ITB ASIA verðlaunin voru afhent en um tíu þúsund aðilar úr ferðamannabransanum frá 110 löndum voru viðstaddir verðlaunaafhendinguna sem fór fram á sýningunni ITB Asia í Singapúr.
Eru þessi verðlaun frábær viðbót í verðlaunasafn Vefgerðarinnar en vefsíðan Mekong Tourism, sem unnin var fyrir ferðaþjónustubransann í Kambódíu, Kína, Laos, Myanmar, Taílandi og Víetnam, vann HSMAI Adrian-verðlaunin um síðustu áramót fyrir nýstárlega vefsíðuhönnun og framúrskarandi markaðsstarf. Eru verðlaunin ein sú virtustu í heiminum þegar kemur að ferðaþjónustuiðnaðinum og haldin af Hospitality Sales & Marketing Association International, alþjóðlegum ferðaþjónustusamtökum.
Síðan fékk einnig verðlaun fyrir stuttu sem besta vefsíðan á árlegu PATA Gold-verðlaunahátíðinni sem haldin var í Indónesíu. PATA eru ferðaþjónustusamtök í Asíu og telur dómnefnd þeirra af atvinnumönnum í ferðaþjónustuiðnaðinum að vefsíðan hvetji til ábyrgrar ferðaþjónustu á Mekong-svæðinu. En við vorum auðvitað búin að segja frá þessum tveimur verðlaunum í bloggi um daginn.
Maðurinn sem á mestan heiður af vefsíðunni Mekong Tourism er vefhönnuðurinn Guðmundur R. Einarsson, sem oft er kallaður Gre Þegar ljóst var að hann myndi vinna þetta verkefni og endurhanna þessa viðamiklu síðu ákvað hann að láta hjartað og ævintýraþrána ráða för og flutti alla fjölskyldu sína, 3 börn og ólétta konu, til Taílands.
Fjölskyldan ætlaði upprunalega að vera í eitt ár í Taílandi en sökum óvæntrar óléttu eiginkonu Guðmundar, Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, var ákveðið að stytta dvölina í þrjá mánuði. Á þessum þremur mánuðum vann Guðmundur ötullega að Mekong Tourism á milli þess sem hann flakkaði um Taíland og upplifði einn stærsta vatnsrennibrautagarð í Asíu, gaf gíröffum og fílum að borða, snorklaði með framandi fiskum í Andaman-hafinu og tók virkan þátt í nýársfagnaði Taílendinga sem er eitt stórt vatnsstríð á götum úti í heila viku.
Í stuttu máli – þetta var algjörlega æðisleg ferð og hefur dregið ánægjulegan dilk á eftir sér.