Við erum að springa úr stolti yfir því að við erum komin í 10 teyma úrslit í frumkvöðlakeppninni Gullegginu með hugmyndina okkar Freebee. Aldrei í okkar villtustu draumum hefðum við þorað að vona að við kæmumst svona langt með hugbúnað sem við erum að þróa.
Til að lýsa Freebee í sem stystu máli, án þess að segja of mikið, þá veitir Freebee neytendum alls kyns ókeypis vörur og þjónustu og fyrirtækjum aðgang að risastórum rýnihópum. Freebee er líka massa hress, lifandi, skemmtileg og litrík vefsíða.
Hugmyndin að Freebee kviknaði fyrir um tveimur árum síðan en var búin að liggja í dvala þangað til við ákváðum að kýla á þátttöku í Gullegginu í september síðastliðnum. Við trúum rosalega mikið á þessa hugmynd okkar en vissum að samkeppnin yrði hörð í þessari skemmtilegu frumkvöðlakeppni þannig að við bjuggumst ekki við neinu.
En fyrir helgi var tilkynnt um þær 10 hugmyndir sem eru komnar í 10 teyma úrslit, af þeim 82 hugmyndum sem voru sendar inn í keppnina að þessu sinni. Tilfinningin að fá símtalið þar sem okkur var tilkynnt um þetta var hreinlega ólýsanleg og gaf okkur svo sannarlega byr undir báða vængi. Það að við séum komin svona langt í Gullegginu staðfestir enn frekar að hugmyndin er góð og að hún eigi möguleika á að verða að veruleika. Það er rosalega góð tilfinning, enda er Freebee orðið eins og litla barnið okkar sem við elskum skilyrðislaust.
Úrslitin í Gullegginu fara fram næsta laugardag, á sjálfan kosningadaginn, eftir að við kynnum hugmyndina okkar fyrir fjárfestum. Stór partur af þessari viku fer því í að undirbúa téða kynningu og tökum við þeirri áskorun fagnandi!
Og hver veit, kannski vinnum við næsta laugardag. Kannski ekki. Sama hvernig fer, erum við sannfærð um að Freebee verði vörumerki sem hvert einasta mannsbarn á Íslandi á eftir að þekkja innan nokkurra ára. Þið lásuð það fyrst hér!